I. Kafli – Heiti, aðsetur og hlutverk
1. gr.
Félagið heitir Alþjóðleg ungmennaskipti, skammstafað AUS og á ensku ICYE Iceland. Aðsetur og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
AUS eru frjáls félagasamtök rekin án hagnaðarsjónarmiða og á landsvísu.
3. gr.
AUS eru sjálfboðaliða- og fræðslusamtök. Markmið félagsins er að stuðla að friði og skilningi milli einstaklinga og þjóða og vinna gegn fordómum hvers konar. Félagið vinnur að markmiði sínu m.a. með því að senda ungmenni erlendis í sjálfboðaliðastarf og taka á móti ungmennum í sama tilgangi til Íslands. Þannig ýtir félagið undir meðvitund og lærdóm ungmenna um ólíka menningarheima auk þess að stuðla að þroska, sjálfstæði, meðvitund og virkni þeirra í samfélaginu.
III. Kafli- Félagsaðild
4. gr.
Félagsmenn AUS eru allir þeir sjálfboðaliðar/nemendur sem hafa farið til útlanda á vegum ungmennaskipta Þjóðkirkjunnar frá 1961-1983 og frá 1983 á vegum AUS. Aðrir einstaklingar sem bera hag félagsins fyrir brjósti og starfa í þeim anda geta orðið félagsmenn. Skráning í félagið skal berast félagsinu skriflega. Úrsögn úr félaginu skal einnig tilkynna skriflega til félagsins.
5. gr.
Stjórn AUS getur vikið félagsmanni úr félaginu ef hann hefur brotið lög félagsins eða með öðrum hætti sýnt af sér háttsemi sem er andstæð hagsmunum félagsins. Áður en tekin er ákvörðun um brottvísun skal gefa félagsmanni kost á að koma að andmælum um hina mögulegu brottvikningu. Ofangreind samskipti skulu vera skrifleg. Félagsmaður getur krafist þess að ákvörðun stjórnar um brottvikningu hans sé borin undir aðalfund.
6. gr.
Aðalfundi er heimilt að ákveða hófleg félagsgjöld.
7. gr.
Félagið getur kjörið heiðursfélaga. Tillaga um slíkt kjör skal liggja fyrir viku fyrir aðalfund og telst hún samþykkt ef hún fær 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi.
8. gr.
AUS er aðili að alþjóðasamtökum International Cultural Youth Exchange (ICYE) og að Landssamtökum æskulýðsfélaga (LÆF). Aðild og úrsögn að öðrum samtökum er háð samþykkt aðalfundar.
IV. Kafli- Aðalfundur
10. gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og hefur úrskurðarvald í öllum málum þess. Aðalfund skal halda í september, október eða nóvember ár hvert. Til fundarins skal boðað með því að senda fundarboð til félagsmanna í tölvupósti, með tveggja vikna fyrirvara hið skemmsta, og telst hann þá löglegur. Í fundarboði skal getið þeirra mála sem kunnugt er að lögð verði fyrir fundinn auk venjulegra aðalfundarstarfa, sbr. 13. gr. þessara laga.
Skýrsla stjórnar, reikningar félagsins, rekstrar- og starfsáætlun og hugsanlegar lagabreytingartillögur skulu liggja fyrir a.m.k. viku fyrir aðalfund.
11. gr.
Á aðalfundi skal skipa 3 menn í kjörnefnd sem kanna kjörgengi og atkvæðisrétt fundarmanna. Kjörgengi og atkvæðisrétt hafa allir félagsmenn sem greitt hafa ársgjöld. Ekki er leyfilegt að veita öðrum félagsmanni umboð sitt á aðalfundi. Gestir aðalfundar hafa málfrelsi, en hvorki tillögu- né atkvæðisrétt. Í öllum málum sem þarfnast atkvæðagreiðslu ræður hreinn meirihluti greiddra atkvæða, nema sérstaklega sé kveðið á um annað.
12. gr.
Kosning til stjórnar fer fram með leynilegri atkvæðagreiðslu. Stjórn er kosin til eins árs í senn og skal kjósa formann, gjaldkera, ritara og varamann sérstaklega. Ef einn aðili er í framboði til embættis skal engu síður fara fram kosning. Ef atkvæði falla jöfn skal kosning fara fram aftur, en ef atkvæði falla jöfn í annað sinn skal hlutkesti ráða.
13. gr.
Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Kosning kjörnefndar.
3. Skýrsla stjórnar kynnt og rædd.
4. Reikningar síðasta árs lagðir fram til umræðu og atkvæðagreiðslu.
5. Starfsáætlun og rekstraráætlun lagðar fram til umræðu og atkvæðagreiðslu.
6. Mögulegar lagabreytingar kynntar, ræddar og afgreiddar.
7. Hugsanlegar ályktanir/ tillögur kynntar og ræddar.
8. Aðalfundur leysir stjórn undan ábyrgð.
9. Kosning stjórnar.
10. Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna.
11. Önnur mál.
V. Kafli- Stjórn
14. gr.
Stjórn AUS fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda og sér um að framfylgja samþykktum aðalfundar og lögum félagsins, auk þess að bera ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Stjórn félagsins skipa formaður, gjaldkeri, ritari og þrír meðstjórnendur. Ritari gegnir einnig hlutverki varaformanns. Ef stjórnarmaður segir stöðu sinni lausri skal varamaður taka sæti í stjórn.
16. gr.
Formaður skal boða stjórnarfundi með tryggilegum hætti og með hæfilegum fyrirvara. Framkvæmdastjóri situr fundi stjórnar nema þess sé ekki óskað, þar hefur hann málfrelsi og tillögurétt en er án atkvæðisréttar. Ákvarðanir stjórnarfundar teljast löglegar ef a.m.k. meirihluti stjórnar mætir. Einfaldur meirihluti atkvæða skal ráða úrslitum atkvæðagreiðslu. Ef atkvæði reynast jöfn, þá vegur atkvæði formanns tvöfalt.
Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.
17. gr.
Komi upp sú staða að stjórnarmeðlimur þurfi að segja stöðu sinni lausri getur stjórn félagsins skipað annan einstakling í stjórn félagsins. Komi fram vantraust á stjórnarmeðlim skal boða til stjórnarfundar þar sem vantrauststillaga er borin upp. Sé hún samþykkt af meirihluta stjórnar, skal viðkomandi aðili víkja úr stjórn þá þegar.
VI. Kafli- Fjármál
18. gr.
Reikningsár AUS skal vera frá 1. ágúst til 31. júlí.
19. gr.
Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda eða tveimur skoðunarmönnum reikninga sem kosnir eru á aðalfundi, og skal annar þeirra hafa þekkingu á bókhaldi. Skoðunarmenn mega ekki sitja í stjórn AUS á sama tíma. Ef skoðunarmenn samþykkja ekki báðir ársreikning, þá skal senda hann til viðurkennds bókara til endurskoðunar. Skoðunarmönnum er heimilt, ef þeir telja þess þörf, að gera könnun á fjárhag og færslu bókhalds hvenær sem er á reikningsári.
VII. Kafli- Slit
20. gr.
AUS verður ekki slitið nema á aðalfundi og þá aðeins að 4/5 greiddra atkvæða samþykki þá ráðstöfun. Fyrirhuguð slit félagsins skal alltaf taka fram í fundarboði aðalfundar. Við félagsslit skal skipa 3 fulltrúa í sérstaka skilanefnd og er formaður AUS jafnframt formaður skilanefndar. Fjármunir félagsins skulu renna til alþjóðaskrifstofu ICYE, “The Federation of International Cultural Youth Exchange“.
VIII. Kafli- Lagabreytingar og gildistaka
21. gr.
Lögum þessum er einungis hægt að breyta á aðalfundi með 2/3 hluta greiddra atkvæða enda hafi breytingartillögurnar borist skrifstofu eða stjórn á tilskyldum tíma fyrir aðalfund.
22. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eldri lög félagsins, og þær samþykktir sem stangast á við lög þessi.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi AUS 19. janúar 2008 og breytt 29. september 2011 og 24. Október 2013 og Október 2014