Posts

Sjálfboðavinna Kosta Ríka

Fór til Kosta Ríka í sjálfboðavinnu og var í námi

Sóldís Alda Óskarsdóttir fór til Kosta Ríka í sjálfboðavinnu vorið 2016. Sóldís hefur mikinn áhuga á ferðalögum og hefur ferðast mikið. Hún hafði samband við okkur stuttu fyrir jól í fyrra og var komin út í febrúar á þessu ári. Sóldís fór út í 6 vikur, var í 4 vikur í sjálfboðavinnu og ferðaðist í 2 vikur. Sóldís var í námi og fór út á miðri önn. Hún segir það vel geranlegt, krefjist einungis skipulags og ef til vill ekki skyldumætingar í tíma ;). Eins og margir sjálfboðaliðar nefna eftir heimkomu, segir Sóldís ferðina of stutta og hvetur aðra að fara í lengri tíma.

Soldis_CR

Fannst tíminn líða of hratt

Ég valdi AUS vegna þess að margir mæltu með samtökunum. Einnig fannst mér AUS vera með meira spennandi verkefni heldur en önnur samtök. AUS reyndist mér ótrúlega vel, allt var vel skipulagt bæði hér heima og hjá samstarfssamtökum þeirra úti í Kosta Ríka.
Ég valdi ICYE Steps, sem eru verkefni í styttri tíma utan Evrópu. Ég vildi fara í verkefni utan Evrópu var einfaldlega sú að ég hef ferðast mjög mikið innan Evrópu og vildi prófa eitthvað nýtt. Ég valdi Steps frekar en Long-Term því ég var í háskólanámi þegar ég fór út. Ég fór út á miðri önn og var í sex vikur. Það er vel hægt ef maður skipuleggur sig mjög vel og algjörlega þess virði. Þegar ég var komin út hafði ég engan áhuga á að fara heim og þessar sex vikur liðu alltof hratt. Ég myndi frekar mæla með lengri tíma verkefnum ef fólk hefur tök á því. Ég mæli líka algjörlega með styttri tíma verkefnunum þar sem maður upplifir ótrúlega mikið á þessum tíma og lendir í nýjum ævintýrum á hverjum einasta degi (mjög mikil klisja en það er í alvöru þannig).

Kosta Ríka algjör paradís

Ég valdi að fara til Kosta Ríka og get hiklaust mælt með því landi. Ég vildi fara til spænskumælandi lands og var alltaf aðallega að horfa á Mið-Ameríku. Ég hafði heyrt mjög góða hluti um Kosta Ríka og eftir að hafa kynnt mér landið og skoðað myndir þaðan var ég ákveðin í að fara þangað. Kosta Ríka er algjör paradís, endalaust af pálmatrjám og strendur með hvítum sandi og tærum sjó.
Ég valdi verkefni sem heitir Obras del Espiritu Santo og var þar að vinna á leikskóla í San José. Ég valdi það af því að mig langaði að vinna með krökkum og fannst þetta verkefni þess vegna spennandi. Verkefnið kom mér mjög mikið á óvart, það var bæði krefjandi og skemmtilegt, og samstarfsfólkið var frábært.

Soldis_CR

Allt annar heimur

Þegar ég kom út af flugvellinum tók á móti mér alveg annar heimur, mjög heitt og svona milljón manns fyrir utan flugvöllinn með allskonar skilti og enn fleiri öskrandi leigubílstjórar að bjóða manni far. Ég fann þó fljótlega manninn frá ACI (samtökunum hérna úti) sem var að sækja mig og hann skutlaði mér til host fjölskyldunnar. Daginn eftir fór ég á kynningu hjá ACI, þar sem ég fékk kynningu á verkefninu, landinu og menningunni, ásamt alls konar praktískum upplýsingum. Seinni hluti dagsins fór svo í að skoða miðbæinn og fá mér mjög langþráð Starbucks. Næsta dag byrjaði ég svo í verkefninu og þá fór ég svoldið að komast í rútínu.

Bjó hjá fósturfjölskyldu

Ég bjó hjá fjölskyldu og upplifunin mín þar var frábær. Ég virðist alltaf ætla að vera jafn heppin með host fjölskyldur/meðleigjendur/herbergisfélaga sama hvert í heiminum mér dettur í hug að fara. Ég heyrði reyndar ekki um neinn sjálfboðaliða sem var ósáttur við host fjölskylduna sína þannig að þetta var líklega engin heppni 🙂 Host mamma mín var mjög nice og vildi allt fyrir mig gera. Hún átti fjögur börn sem bjuggu heima, þó þau voru á aldrinum 26-36 ára, en það er eðlilegt í Kosta Ríka. Mér fannst helsti kosturinn við að búa hjá fjölskyldu vera sá að maður kynnist landinu og menningunni miklu betur. Þá sér maður hvernig fólkið býr, sem mér finnst ótrúlega spennandi, og í raun eitt af því sem mér finnst áhugaverðast við að ferðast.

Soldis_CR

Undirbjó sig vel fyrir brottför

Ég var ekki smeyk við margt áður en ég fór út. Ég var búin að lesa mikið af bloggum hjá fólki sem hafði verið í Kosta Ríka og þau töluðu öll mjög vel um landið. Það sem ég var þó helst smeyk við var að landið væri ekki mjög öruggt og að mér myndi e.t.v. líða óöruggri í tíma og ótíma. Það var þó alls ekki þannig, ég upplifði mig aldrei óörugga, hvorki í Kosta Ríka, né í Panama eða Nicaragua. Kosta Ríka búar eru mjög indælir og alltaf tilbúnir að hjálpa manni ef maður villist eða eitthvað svoleiðis. Ég var mjög dugleg að villast fyrstu dagana (kannski óþarflega dugleg) og þá var aldrei neitt mál að stoppa einhvern og spyrja til vegar. Oft fylgdu þeir manni þangað sem maður var að fara í staðinn fyrir að benda bara eða útskýra hvert maður ætti að labba.

Trúin mikilvæg Kosta Ríka-búum

Það að upplifa menningarmismuninn fannst mér áhugavert og líka mjög eftirminnilegt svona þegar upp er staðið. Fyrsta menningarsjokkið kom strax fyrsta daginn. Þá fór ég með host mömmu minni til vinkonu hennar, þar var einhverskonar saumaklúbbur og við sátum úti á veröndinni. Ég fór aðeins fram og þegar ég kem til baka er komið kaffi á borðið. Þau voru öll voða einbeitt að fara með mjög langa borðbæn eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Helsta menningarsjokkið sem ég upplifði var samt tengt því að Kosta Ríka búar eru miklu trúaðri en Íslendingar. Þegar maður spyr fólk t.d. „¿cómo estás?“ sem þýðir hvernig hefurðu það, þá fær maður mjög oft svarið „bien, gracias a dios“ sem þýðir ég hef það gott, þökk sé guði. Rétt áður en ég fór til Íslands ætlaði ég svo að sækja dót til host fjölskyldunnar minnar. Dótið hafði ég fengið að geyma hjá þeim á meðan ég ferðaðist um Nicaragua og Panama. Ég vissi að host mamma var í ferðalagi svo ég sendi henni skilaboð og spurði hvenær hún kæmi heim, og fékk svarið „á morgun, ef guð leyfir“. Ég vissi svona ekki alveg hvernig ég átti að skilja þetta og hvort ég þyrfti að hafa einhverjar áhyggjur að því að hún kæmi þá ekki heim. Hún kom heim daginn eftir og ég sótti dótið svo þetta var ekkert mál. Almennt virtist mjög margt vera guði að þakka eða að einhverju leyti háð guði.

Soldis_CR

Hrísgrjón og baunir í öll mál

Í kvöldmat voru svo oftast hrísgrjón og baunir (en ekki hvað). Með því var oft kjúklingur, ofsteiktir bananar eða framandi grænmeti. Eitt kvöld fékk ég alveg extra skrítinn kvöldmat sem samanstóð af spaghettíi, kartöflumús og hrísgrjónum. Fyrst hélt ég að það ætti kannski bara eftir að koma með eitthvað kjöt, sem gæti þá mögulega útskýrt tilvist kartöflumúsarinnar. En nei það var ekkert kjöt, bara spaghettí, kartöflumús og hrísgrjón. Ég vissi ekki alveg hvað af þessu ég átti að borða saman, spaghettí og hrísgrón? Kartöflumús og hrísgrjón? Neiii passar ekki alveg.

Þið getið svo lesið meira um ferðina á soldistravels.weebly.com 🙂

Meira um sjálfboðastörf í Kosta Ríka á vegum AUS má finna hér: Kosta Ríka

Filippseyjar

Filippseyjar er ríki í Asíu sem samanstendur af 7107 eyjum. Kristni er stærsta trúin, og móðurmálin eru filipínó og enska.  Veðrið er frekar stöðugt yfir árið, meðalhiti 26,6 gráður á celsíus. Kaldasti mánuðurinn er í janúar en sumarið er frá Mars til Maí. Júní til Október er rigningar- og hvirfilbylatímabil.

Um 92 milljónir manna búa á Filippseyjum, sem gerir landið 12 fjölmennasta ríki í heimi. Menningin í landinu er því fjölbreytt. Vinátta og fjölskylda er mjög mikilvæg ásamt að vera trúrækin og gestrisin. Maturinn er fjölbreyttur, til dæmis mikið um svínakjöt og hrísgrjón. Eyjarnar voru um tíma spænsk nýlenda og er því hluti af menningunni undir áhrifum frá spænskri menningu.

Hvernig fer ég þangað:
Sjálfboðaliðastörf á Filipseyjum með AUS eru í boði í gegnum Steps og Long term verkefnin.

  • Steps verkefnin eru í boði í 2 til 16 vikur og hefjast flest alla mánudaga.
  • Lengri tíma verkefnin eru í boði í 6 eða 12 mánuði og er brottför í janúar og ágúst á ári hverju

Verkefni:

Dæmi um verkefni á Filippseyjum:

  • Kennsluverkefni
  • Vinna á skrifstofu samtakanna
  • Vinna í samtökum heyrnalausra
  • Barnaverefni
  • Vinna í skóla, t.d við enskukennslu og aðstoða við ýmis störf

Meira um verkefnin má finna á gagnagrunni ICYE með því að smella hér.

Tógó

Argentína

Argentína er næst stærsta landið í Suður-Ameríku og áttunda stærsta í heiminum. Buenos Aires er höfuðborgin og stærsta borg landsins. Eins og í öðrum löndum Suður-Ameríku er töluð spænska en einnig önnur evrópumál svosem ítalska, enska og þýska. Stundum er sagt að Argentínubúar tali spænsku með ítölskum hreim, en einnig er talað slangur sem er blanda af spænsku og ítölsku. Matarmenningin er blanda af pasta, rauðvíni og nautakjöti en fer líka eftir landssvæðum, til dæmis í norðurhluta landsins eru sætar kartöflur og jurtir vinsæll matur.

Argentína nær frá Andes fjöllunum í vestri og til suðurhluta Atlantshafs. Landslagið er því mismunandi.

Mikill meirihluti íbúa eiga rætur sínar að rekja til Evrópu, ólíkt öðrum þjóðum í Suður-Ameríku. Meirihluti þjóðarinn eru kaþólikkar. Fótbolti er vinsælasta íþróttin, en þjóðaríþróttinn er þó Pato sem er blanda af Póló og Körfubolta (leikmenn eru á hestum en eiga að koma boltanum í körfu). Ekki má gleyma hinum víðfræga Tangó-dansi sem á rætur sínar í Argentínu. Argentína hefur alið af sér nokkra bestu fótboltamenn heims: Lionel Messi, Diego Maradona, Carlos Tevez og Javier Zanetti.  Aðrið þekktir Argentínubúar eru Biskupinn í Róm; Frans Páfi og Che Guevera, byltingasinni.

Hvernig fer ég þangað:
Sjálfboðaliðastörf í Argentínu með AUS eru í boði í gegnum Steps og Long term verkefnin.

  • Steps verkefnin eru í boði í 2 til 16 vikur og hefjast flest alla mánudaga.
  •  Lengri tíma verkefnin eru í boði í 6 eða 12 mánuði og er brottför í janúar og ágúst á ári hverju

Verkefni:

  • Leikskólar
  • Skrifstofa Argentísku ICYE samtakanna
  • Vinna á ýmis konar barnaheimilum
  • Vinna með götubörnum
  • Vinna að því að styrkja börn sem eiga félagslega erfitt. Mismunandi eftir verkefnum en í því felst oft sköpun og skipulagning á „workshop“ fyrir krakkana.
  • Vinna í skólum
  • Skrifstofuvinna sem kemur að félagsþjónustu
  • Lífræn framleiðsla. Aðstoða við garðyrkjustörf sem stuðla að sjálfbærri þróun. Unnið með krökkum.

Verkefnin í Argentínu má finna á gagnagrunni ICYE með því að smella hér.

Gistiaðstaða:

Sjálfboðaliðarnir gista saman í þar tilgerðum sjálfboðaliðahúsum nálægt þeirra verkefni. Ef að sjálfboðaliðahúsin eru full þá gista þeir á hostelum eða host-fjölskyldum.

Til viðmiðunar: Samkvæmt reiknivél Velferðarráðuneytis fyrir neysluviðmið (Reiknivélina má finna með því að smella hér) er mun dýrara að lifa á Íslandi í ár heldur en að gerast sjálfboðaliði með AUS.

Myndband frá einu verkefni í Argentínu

Hér má sjá myndband frá verkefninu Uniendo Caminos – A city for everyone

Heimasíða samtakanna í landinu:

Subir al sur:  http://www.subiralsur.org.ar/

Brasilía

Brasilía er fjölmennasta land rómönsku ameríku og jafnframt stærsta landið í Suður-Ameríku, en það er staðsett á austurströnd S-A. Landið skiptist í fimm svæði, og er hvert öðru ólíkt. Þar búa um það bil 180 milljónir og er menningin mjög litrík og fjölbreytt. Opinbert tungumál Brasilíu er portúgalska, sem hefur þó sinn sérstæða hreim svo heimamenn vilja frekar kalla það brasilísku.

Höfuðborg Brasilíu heitir Brasilía og er þekkt fyrir sérstæðan arkitektúr sem finnst hvergi annars staðar í heiminum. Með stærri borgum í Brasilíu eru svo Rio de Janeiro og Sao Paolo. Sao Paolo er stærsta borgin en Rio de Janeiro er líklegast sú frægasta, þekktust fyrir mikið næturlíf, samba, carnival og fótbolta.

Hvernig fer ég þangað:

Verkefni í Brasilíu eru bæði í boði í Long Term og Steps verkefnum

  • Long term verkefni eru í 6 eða 12 mánuði og hefjast í janúar eða ágúst á hverju ári.
  • Steps – Styttri tíma verkefni eru í 2-16 vikur og hefjast alla mánudaga.

Verkefni:

  • Í grunnskóla
  • Hjá KFUM og K við ýmis námskeið
  • Á frístundaheimili
  • Með götubörnum
  • Við kennslu fyrir fötluð börn
  • Vinna með borgarráði í borginni Forquilinha við ýmis verkefni
  • Heimili fyrir börn sem berjast við ýmis vandamál; veikind, fátækt eða annað
  • Vinna í háskóla