aus - sagan

Upphaf Alþjóðlegra Ungmennaskipta má rekja til loka síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar prestur af þýskum uppruna, John Eberly að nafni, sem var prestur í amerísku Bræðrakirkjunni (Church of the Brethren) fékk þá hugmynd að stofna til nemendaskipta milli Bandaríkjanna og Þýskalands. Nemendaskiptin voru upphafleg hugsuð sem framlag kirkjunnar til friðar og sátta milli landanna tveggja eftir seinni heimstyrjöldina. Þegar samtökin í kringum þessi ungmennaskipti voru stofnuð hlutu þau nafnið International Christian Youth Exchange. Fyrstu ungmennaskiptin voru skipulögð af Bræðrakirkjunni með fjárstuðning frá menningardeild bandaríska utanríkisráðuneytisins. Árið 1957 var starfið orðið það umfangsmikið að fleiri kirkjudeildir í Bandaríkjunum gengu til samstarfs. Fleiri Evrópulönd komu brátt að starfseminni og stofnun svokallaðra þjóðnefnda (e. national committees) var mikilvægt skref í þróun samtakanna. Þær leiddu til þess að sjálfstæði skapaðist um samtökin í hverju landi.

Ungmennaskiptin við Ísland hófust árið 1961. Þá fóru 9 skiptinemar frá Íslandi til Bandaríkjanna og Ísland tók við 3 skiptinemum frá Bandaríkjunum. Ungmennaskiptin voru þá á vegum Þjóðkirkjunnar og voru æskulýðsfulltrúar hennar ábyrgðaraðilar samtakanna. Í upphafi hafði séra Ólafur Skúlason umsjón með nemendaskiptunum, sem þáverandi æskulýðsfulltrúi kirkjunnar, en við af honum tók séra Hjalti Guðmundsson. Árið 1965 stofnuðu heimkomnir skiptinemar félag sem fékk nafnið Kristileg alþjóðleg ungmennaskipti, skammstafað KAUS. Félagið stofnuðu þau vegna áhuga á að halda tengslin sín á milli, eiga samskipti við erlendu skiptinemana sem hingað komu og taka þátt í ýmsum samfélagslegum verkefnum. Þau deildu einstakri reynslu og vildu miðla henni áfram eftir að heim var komið. Fyrsti formaður KAUS var Valgeir Ástráðsson en Sveinn Rúnar Hauksson tók við af honum árið 1966 og sat í formannssæti til ársins 1969. Jón Bjarman var æskulýðsfulltrúi kirkjunnar á árunum 1966 – 1970 og hafði hann þá yfirumsjón með nemendaskiptum. Á þeim tíma varð KAUS virkari í starfinu. Fulltrúar frá KAUS tóku þátt í vali og undirbúningi þeirra sem voru sendir. Fyrstu árin fóru 10 til 20 skiptinemar út árlega og þá aðallega til Bandaríkjanna. Það var ekki fyrr en árið 1966, þegar ákveðið var að stofna sjálfstæð alþjóðasamtök utan Bandaríkjanna, að skipti opnuðust á milli annarra landa og í kjölfarið hættu þau að vera eingöngu milli Bandaríkjanna og Evrópu. Með tímanum breyttust áherslur samtakanna og þau tengdust minna starfi kirkjunnar. Haustið 1983 þegar ákveðið var að gera samtökin sjálfstæð breyttist nafnið í Alþjóðleg Ungmennaskipti, skammstafað AUS. K-ið sem stóð fyrir „kristilegt“ var fellt út. Nöfn alþjóðasamtakanna breyttust í International cultural youth exchange, þar sem „christian“ var skipt út fyrir „cultural“.  Markmið samtakanna var alltaf að leitast eftir „að gera þátttakendum ljóst hvað þeir eiga sameiginlegt með fólki af öðru þjóðerni, þrátt fyrir aðra trú eða annan lífskilning“ og það gera þau enn þann dag í dag.

AUS hefur starfað með svipuðum hætti í áranna rás og tekið á móti fjölda sjálfboðaliða ár hvert og sent um það bil 10-20 Íslendinga að utan. Starfið byggir að miklu leyti á sjálfboðinni vinnu og þá aðallega frá heimkomnum sjálfboðaliðum, en því til viðbótar hefur að jafnaði einn fastur starfsmaður unnið á skrifstofu samtakanna í Reykjavík. Árið 1996 hófu samtökin að nýta styrkjaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, nánar tiltekið þann hluta sem kallast European Voluntary Service (EVS). Sú áætlun styrkir sjálfboðaverkefni innan Evrópu og eru þau því nánast ókeypis fyrir ungt fólk sem vill nýta sér það. Á þeim 15 árum frá því að EVS-verkefnið var sett á fót hafa fleiri en 50.000 sjálfboðaliðar farið milli Evrópulanda með því móti. Árið 2010 fengu fleiri en 5000 EVS-sjálfboðaliðar styrk til að taka þátt í verkefnum og er það eitt af markmiðum Framkvæmdastjórnar ESB að EVS-sjálfboðaliðar verði 10.000 árlega áður en langt um líður. AUS tekur á móti um það bil 20 erlendum sjálfboðaliðum ár hvert, í gegnum ICYE og EVS, og sendir út 10-25 Íslendinga.

Sjá meira um söguna hér – www.icye.org/incomplete-story