Posts

Viðtal við Matthildi Jóhannsdóttir, fyrrverandi sjálfboðaliða og fósturmömmu

Það er sólríkur mánudags morgun og sitjum við Matthildur inn í eldhúsi að ræða um hana Josephine, AUS sjálfboðaliða frá Kenía, en Matthildur og fjölskylda tóku hana að sér í 9 mánuði á meðan á dvöl hennar stóð yfir á Íslandi. Tilgangur heimsóknarinnar var að komast að því hvernig stóð til að fjölskylda hennar ákvað að taka að sér sjálfboðaliða og hvernig gekk.

Matthildur Jóhannsdóttir

Matthildur Jóhannsdóttir

Matthildur fór á vegum AUS til Ítalíu á árunum 1985 til 1986 en ævintýraþrá hennar varð til þess að hún ákvað að gerast sjálfboðaliði og ferðaðist til Ítalíu. Það er óhætt að segja að þessi lífsreynsla hafi heldur betur breytt lífi Matthildar til frambúðar og talar hún um þennan tíma sem hálfgerðan stökkpall fyrir líf sitt. Hún lærði Ítölsku sem var til þess að hún átti mun auðveldara að fá vinnu þegar hún kom aftur heim, þessi reynsla gaf henni síðan þor til að fara í framhalds háskólanám til Spánar þar sem hún gat nýtt þekkingu sína á Ítölsku til að læra Spænsku.

Matthildur var hjá fósturfjölskyldu á Ítalíu, þetta var indælt fólk en fjölskyldan hafði tekið að sér sjálfboðaliða áður. Hún var sett inn í fjölskylduna sem einn af meðlimum þess og var þarna orðin hálfgerð stjóra systir dóttur hjónanna. Það fór svo að hjónin skildu á meðan hún bjó hjá þeim og það æxlaðist þannig að  hún fór að hugsa meira og meira um 6 ára dóttur þeirra og varð hálfgerð „mamma“ fyrir stúlkuna. Þessi reynsla kenndi henni hvernig ætti að hugsa um börn og segir hún að „kærleikurinn og ástin vex þar sem þú getur ekki annað en elskað börn eftir að þú hefur umgengist þau í vissan tíma.“ Matthildur segir að hún hafi ekki auðnast að eignast börn en í dag er hún fósturmóðir tveggja barna,10 og 14 ára og telur lærdóminn sem hún öðlaðist á Ítalíu eiga stóran part í því að hún ákvað að taka að sér tvö ung börn.

Þegar Matthildur er spurð af hverju hún ákvað að taka að sér sjálfboðaliða þá svaraði hún eftirfarandi: „Það má segja að ég tók þá ákvörðun að ég ætlaði að taka að mér sjálfboðaliða þegar ég kom heim frá Ítalíu árið 1986, þegar þannig stæði á hjá mér. Ég var með auka herbergi í kjallaranum, ég hugsaði að börnin mín myndu læra ensku, eins myndu þau læra hvað þau hefðu það svaka gott hér á Íslandi. Það voru fjögur mjög stór augu sem horfðu á mig og sögðu „HA? Frá AFRÍKU?!!“ Ég hefði haldið að þau héldu að hún Josephine myndi birtast hér með spjót“. Matthildur hlær þegar hún rifjar þetta upp en hún segir að þessi reynsla hafi breytt heimsmynd barna hennar mjög mikið og sá heim þeirra stækka í hverjum mánuðinum, ekki bara hjá þeim en líka fyrir börnin í nágrenninu, en fyrstu vikuna eftir að Josephine kom var streymi af börnum á heimilinu en svo var þetta orðið voða venjulegt. Hún rifjar upp fyrstu vikurnar og brosir þegar hún segir „Josephine var mjög hissa yfir því að maðurinn minn eldaði fyrir hana mat og eins að svo margar tölvur væru til á heimilinu og full skúffa af ritvinnsludóti, hún hélt fyrst að ég ræki skrifstofu á heimilinu, þar sem magnið var meira en á skrifstofunni hennar í Kenía.

Fjölskyldan saman

Fjölskyldan saman

Þegar Matthildur var spurð út í þessa níu mánuði segir hún: „Ég hugsa að fólk hræðist oft að lenda hjá ólíku fólki sem þú telur þig ekki passa hjá eða að þú tekur að þér sjálfboðaliða og viðkomandi passi ekki inn í fjölskylduna. Í mínu tilviki var Josephine mjög vel upp alin og sýndi okkur alveg frá byrjun mjög mikla virðingu og tillitsemi, sumir hafa áhyggjur af matapeningunum sem fylgja með sjálfboðaliðanum en ef að þú ert að elda fyrir 4 manna fjölskyldu, þá er þetta í rauninni bara afgangar sem þú myndir venjulega henda sem færi ofan í fimmta einstaklinginn, nú meina ég þetta ekki á slæman máta. Ég gat alveg verið ég sjálf heima hjá mér, ég fékk miklu meiri félagsskap, ég kannski byrjaði að elda og Josephine fór að stússast í kringum mig, vorum bara að dúllast í eldhúsinu, ég þurfti  náttúrlega fyrstu 3-4 dagana að sinna henni, það er bara eðlilegt. Ég kynnti henni fyrir Hafnafirði og hvar hlutirnir væru, fór með hana út í búð. Ég gerði mig grein fyrir því að þetta væri svolítið mikið fyrir hana og því gerði ég ekki allt í einu, ég tók hana bara með mér í þetta venjulega líf sem við vorum að lifa. Ég var ekki hrædd við að láta Josephine taka þátt í heimilishaldinu og sá hún um ýmis húsverk rétt eins og við hjónin og börnin okkar“.

Þegar ég spyr hvað telur hún að Josephine hafi lært af því að vera á Íslandi svarar hún hlæjandi: “Ég held að hún myndi vilja senda alla karlmenn frá Kenía sem sjálfboðaliða til Íslands, hún  átti ekki til orð yfir því hvernig íslenskir karlmenn pössuðu börnin sín og keyrðu stoltir um með barnavegna, henni þótti það mjög sjarmerandi þar sem þetta tíðkaðist ekki í hennar menningu. Ég tel að stærsta upplifunin fyrir hana var að taka þátt í okkar daglega lífi. Það sem mest var, ég lærði hvað ég hafði það svakalega gott, maðurinn minn kanna að elda og tekur þátt í heimilisstörfunum, börnin mín lærðu það góða ensku að dóttir mín er að raða upp 10 í skólanum í ensku, sonur minn er í dag altalandi og þarf lítið að hafa fyrir heimanáminu í ensku nema að læra að skrifa hana, börnin mín geta einnig sungið á Svahílí!. Við erum öll miklu ríkari. Á jólunum fékk hún litla jólapakka, ég hef aldrei sé neinn nokkurn tíman jafn glaðan yfir að horfa á jólapakkana, það var yndislegt að fylgjast með henni og kenndi okkur um leið þá gleði sem fylgir  öllum þeim jólapökkum. Við höldum enn sambandi og tölum saman ca einu sinni í mánuði. Við erum búin að ákveða að fara til Kenía að hitta hana og ætlum að vera úti í mánuð.

Þú veist ekki hvað þú lærir þegar þú tekur að þér sjálfboðaliða og hversu gefandi þetta getur verið. Maður hugsar kannski að þegar maður er orðin 53 ára að þá sé maður búin að ná öllum þroskanum, en það er bara bull og vitleysa, ég var svakalega heppin og mæli hiklaust með þessu“.

 

Viltu vera fósturfjölskylda og fá til þín sjálfboðaliða í 6-12 mánuði? Hafðu samband við AUS í síma 517-7008 eða á netpósti aus@aus.is

 

*Greinin birtist fyrst í Fréttabréfi AUS 2014