Besta kaffið er í Bosníu…
Það er einkennilegt að líta til baka seinasta hálfa árið og stundum er eins og þetta hafi allt verið draumur.
Staðreyndin er sú að ég pakkaði saman í tösku með frekar stuttum fyrirvara og flutti til Bosníu og Hersegóvínu í sex mánuði. Ég fór út í september á seinasta ári en ég kom heim núna í mars. Það eru sjálfsagt ekki mörg ungmenni á Íslandi sem hafa flutt til Bosníu og Hersegóvínu í sex mánuði án mikils fyrirvara. Þó eru mörg svipuð tækifæri í boði fyrir ykkur sem þrá og vilja hrista vel upp í hversdagsleikanum og fara á vit ævintýra. Bæði innan sem utan Evrópu.
Tækifærin eru líka fyrir þig!
Ég er ein af þeim sem greip þetta tækifæri og fór sem EVS (Europian Voluntary Service) sjálfboðaliði á vegum Alþjóðlegra ungmennaskipta (AUS), til þessa framandi lands á vestanverðum Balkanskaganum, en Evrópa Unga
Fólksins (EUF) styrkti þetta tiltekna verkefni.
Ég hélt alltaf að ég þyrfti að eiga fullt af peningum til að fara sem sjálfboðaliði en það var ekki raunin.
Nánast allt, húsnæði, matur, vasapeningur og megnið af ferðakostnaði er greitt fyrir þig. Ég hafði farið á
skólakynningu hjá AUS í Menntaskólanum við Hamrahlíð en kannski ekki almennilega meðtekið tækifærin sem voru
í boði hjá þeim. Eftir útskrift ákvað ég að hinsvegar að kíkja við til þeirra og kanna hvað var í boði fyrir einstakling eins og mig. Áður en ég vissi af var búið að samþykkja mig í sjálfboðastarf til Bosníu og Hersegovínu og var ég að fara að vinna á stofnun sem var samblanda af leikskóla, dvalarheimili fyrir aldraða og heilsugæslustöð fyrir konur og börn.
Menningarsjokk!
Fyrstu vikurnar voru óneitanlega erfiðar en ég var búin að ákveða að gefast ekki upp. Ég var í litlum krúttlegum bæ sem hét Sanski Most og eru um 95% íbúa þar islam trúar. Það voru ekki margir sem töluðu ensku og ekki mikið af
ungu fólki á mínum aldri. Bosnía er líka ótrúlega flókið land sem er skipt í tvo hluta og er með þrjá forseta í einu til að halda friði á milli þjóðernishópa.
Það tók mig svolítin tíma að venjast stéttaskiptingunni á vinnustaðnum. Það var eitt af því sem mér þótti
einkennilegast og er það algengt í þessu landi að stéttaskiptingin er mikil innan vinnustaðarins. Yfirmenn og
starfsfólk sem gegndi „mikilvægum“ störfum innan þessara stofnunar borðuðu ávalt saman morgun- og hádegismat og áttu í litlum sem engum samskiptum við þá starfsmenn sem unni við þrif eða í eldhúsinu, nema ef ræða þurfti nauðsynleg mál. Ef börn „merkilega“ fólksins voru á barnaheimilinu þá fengu þau líka annan mat heldur en hin börnin. Viðurkenni ég fúslega að mér þótti erfitt að aðlagast og horfa upp á svona ójafnrétti, sérstaklega hjá
litlum börnum, en að sama skapi þakklát að svona viðgengst ekki hér á Íslandi.
Maturinn í Bosníu er oft frekar fitumikill, enda mikið steikt upp úr olíu og þótti mér skrítið að fá ávallt hálfan brauðhleif (ekki eina brauðsneið) með matnum fyrir mig eina til að borða. Það er algengt að fólk borði heilan brauðhleif á dag ef ekki meira í þeim hluta Bosníu sem ég var í. Eftir fyrstu tvo mánuðina fékk ég eldhús til að nota og ég eldaði mér mat sjálf.
Verkefnið mitt
Venjulegur dagur var þannig að ég vann á barnaheimilinu á morgnanna, hjálpaði aðeins til í eldhúsinu, keyrði út
mat og stoppaði svo í kaffi með vinnufélaga mínum. Utan verkefnisins míns var ég stundum hjá öðrum samtökum
en þar skipulagði ég enskukennslu fyrir infædda og sá um enskukennslu á framhaldsstigi.
Endurvinnsla þekkist lítið sem ekkert á þessu svæði sem ég var á og stundum fannst mér eins og rusli væri
bara sturtað einhversstaðar út á víðavangi. Ég ákvað að gera mitt af mörkum til að endurnýta hluti en mér leið
alltaf mjög skringilega þegar ég henti dósum og flöskum beint í ruslið. Þótti mér þó skemmtilegast þegar ég bað
eldhús dömurnar um að geyma gamla eggja bakka fyrir mig þar sem ég ætlaði að nota þá í leikskólakennsluna.
Starfsfólk barnaheimilisins og konunum í eldhúsinu fannst þetta mjög einkennilegt að ég skuli vilja geyma rusl. Einn dag ákvað ég svo að föndra blómakrans úr eggjabökkunum með krökkunum á barnaheimilinu en ég einfaldlega
klippti út blóm og lauf sem börnin máluðu. Þetta fannst öllum ótrúlegt og þegar gestir komu í heimsókn bentu
samstarfskonur mínar iðulega á kransinn og sögðu: “Þetta var einu sinnu rusl! Og sjáðu þetta núna!” Allir voru
ótrúlega hissa að hægt væri að gera eitthvað sniðugt úr rusli og hægt væri að endurvinna allskonar vörur. Á
barnaheimilinu vorum við líka með skemmtilega hluti fyrir börnin eins og litla hárgreiðslustofu og lítinn spítala sem þau léku sér iðulega á.
Eftir að vinna á barnaheimilinu á morgnanna fór ég með félaga mínum honum Hussein, 60 ára gamall ótrúlega krúttlegur og góður maður, sem talaði ekki stakt orð í ensku. Þegar fólk furðaði sig á því að við værum að
vinna saman, spurði það iðulega hvernig það gengi, þá sagði Hussein að við værum fullkomin saman í þögninni. Við
keyrðum um bæinn, hlustuðum á tónlist og stoppuðum svo alltaf í kaffi eða bjór eftir það. Ég reyndi að nota mína
kunnáttu í bosnísku til að tala við hann, svo var ég líka mjög dugleg að nota táknmál og auðvitað brosið. Við fórum út um allan bæ og sveitirnar í kring á litlum rauðum Golf með mat handa þeim sem áttu minna milli handana. Við það að dreifa mat sá ég það sem var dulið í samfélaginu, eitthvað sem ég hefði sjálfsagt aldrei áttað mig á eða tekið eftir. Aðstæður hjá mörgum voru hræðilegar og var ég að fara á ótrúlegustu staði með mat. Sumir bjuggu í kofum settum saman úr bárujárni og múrsteinum og einhverjir voru ekki með gólf inni hjá sér heldur löbbuðu á drullu. Ég gleymi aldrei manninum sem bjó í húsi með hestinum sínum. Hann hafði búið þar í 17 ár í húsi sem hafði enga einangrun, ekkert gler í gluggunum og för eftir byssukúlur í veggjunum að utan, eftir stríðið á Balkanskaganum 1992-1995. Þetta var eitt dæmi af mörgum og er ég ótrúlega þakklát fyrir það sem ég hef á Íslandi.
Trú og ferðalög
Bosníu er skipti í tvo hluta og í öðrum þeirra eru múslimar í meirihluta en þar er mjög mikið af moskum. Á hverjum degi, fimm sinnum á dag heyrðist bænakall frá turnum moskunnar í bænum. Fyrst fannst mér þetta frekar
einkennilegt en þegar líða fór á dvöl mína þótti mér bænakallið mjög fallegt og róandi. Núna sakna ég þess
eiginlega að heyra það ekki fimm sinnum á dag. Ég hafði gott tækifæri til að kynna mér þessa trú betur, eitthvað
sem ég hefði sjálfsagt aldrei gert nema af því að ég bjó í islam samfélagi. Ég lærði líka bosníska matargerð frá
vínkonu minni úr bænum og hvernig á að gera alvöru bosnískt kaffi.
Ég hafði tækifæri á því að ferðast mikið en ég átti inni frí fyrir störf mín. Fyrst tók ég mér frí um jólin en þá
komu mamma og pabbi í heimsókn. Við fórum saman til höfuðborgarinnar Sarajevo og vorum þar yfir jól og áramót og fengum lánaða íbúð hjá konu sem ég hafði kynnst áður. Það var mjög gaman en líka mjög sérstakt. Á
aðfangadag fórum við í miðnæturmessu í kaþólsku kirkjunni. Á jóladag borðuðum við kebab og drukkum rakija. Um
áramótin stóðum við úti á torgi og töldum niður í nýja árið ásamt nokkrum þúsundum manna. Á þessu hálfa ári sem ég vari úti upplifði ég í raun þrjú nýár. Það islamska var í byrjun nóvember, okkar „venjulega“ og svo nýár rétttrúnaðarkirkjunnar um miðjan janúar.
Í febrúar átti ég inni frí og fór í þriggja vikna ferðalag um vestur-Balkanskagann. Ég fór til Serbíu, Kosovo,
Makedóníu, Albaníu og Svartfjallalands. Sem hluti af EVS sjálfboðastarfinu fer maður á þjálfanir, skipulagðar af EVS, og kynnist fullt af frábæru fólki. Ég kynntist helling af öðrum sjálfboðaliðum í nærliggjandi löndum og fékk að gista hjá þeim á meðan ég ferðaðist. Það er mjög auðvelt að taka rútur um Balkanskagann og ég þurfti bara einn
bakpoka með fötum og svefnpoka.
Það sem stóð mest upp úr ferð minni um Balkanskagann var að vera í Albaníu. Þar gisti ég hjá strák frá Svíþjóð og hann hafði mikinn frítíma til að sýna mér um höfuðborgina Tirana. Það er mjög mikill munur á Albaníu og hinum Balkan löndunum en Albanía var lengi lokuð frá umheiminum á kommúnistatímanum þar. Albanía er mjög fallegt land en það getur verið algjör dauðagildra að labba um en vegirnir eru ennþá mjög slæmir. Ég var alltaf hársbreidd frá því að detta ofan í djúpa holu eða láta keyra á mig á götum sem ekki voru gangstéttir. Fyrir utan miðbæinn eru húsin umkringd háum veggjum og gaddavír. Einn morguninn tókum við gamla skíðalyftu upp á fjall og sáum yfir alla borgina. Í Albaníu er líka mjög góður matur og besti bjórinn. Svo á ég margar fleiri ótrúlega góðar minningar frá ferðalaginu eins og að vera týnd í Kosovo, fara á hommaklúbb í Serbíu, læra þjóðdansa, kaupa perlur í Makedóníu, skoða moskur og fara á bar í borginni Bar í Svartfjallalandi.
Það sem ég á eftir að sakna mest frá Bosníu er æðislega kaffið, fallega bænakallið úr moskunni, Hussein sem keyrði matinn með mér og börnin á barnaheimilinu.
Í lokin langar mig að hvetja alla sem langar til að fara út sem sjálfboðaliði að hafa samband við AUS og sjá hvað er í boði. Ég gerði það og á aldrei eftir að sjá eftir því.
Bosnía og Hersegovína
Hrafnhildur Sif Þórólfsdóttir